Viktor Jóns gerði þrennu þegar ÍA vann HK

Meistaraflokkur karla spilaði í dag við HK í leik um þriðja sæti í fotbolti.net mótinu en leikurinn fór fram í Kórnum. Bæði lið höfðu átt góða spretti í riðlakeppni mótsins.

Leikurinn fór frekar jafnt af stað en HK komst yfir þegar Emil Atlason kom boltanum í netið. Skagamenn héldu áfram að spila sinn leik og Viktor Jónsson náði að jafna metin fyrir ÍA með góðu marki.

Skömmu síðar átti HK góða sókn sem endaði með því að Brynjar Jónsson skoraði mark. Þrátt fyrir ágæt færi á báða bóga voru ekki fleiri mörk skoruð í hálfleiknum og HK leiddi því 2-1.

Skagamenn komu af krafti inn í seinni hálfleik og ógnuðu marki HK töluvert. Það skilaði sér svo þegar Viktor Jónsson skoraði fallegt mark og staðan orðin jöfn í leiknum.

Bæði lið fengu svo sín færi en þegar langt var liðið á leikinn innsiglaði Viktor Jónsson sigur ÍA og fyrstu þrennu sína fyrir félagið með marki eftir vel útfærða sókn.

Leiknum lauk þannig með 3-2 sigri ÍA og liðið endaði í þriðja sæti fotbolti.net mótsins.