Skagastelpur unnu verðskuldaðan sigur á HK/Víking

Meistaraflokkur kvenna tók á móti HK/Víking í fjórða leik liðsins í Lengjubikarnum í Akraneshöll í kvöld.

Töluvert jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og mikil barátta var á milli leikmanna beggja liða. Góð færi sköpuðust á báða bóga en þrátt fyrir margar ágætar tilraunir var aðeins eitt mark skorað í hálfleiknum.

Markið gerði Fatma Kara eftir ágæta sókn HK/Víkings og stoðsendingu frá Karólínu Jack. Staðan í hálfleik var því 0-1 fyrir gestina.

Skagastelpur voru svo sterkari aðilinn eftir því sem leið á seinni hálfleikinn. Það skilaði marki snemma leiks þegar Ylfa Laxdal Unnarsdóttir skoraði eftir góðan undirbúning frá Fríðu Halldórsdóttur.

ÍA hélt svo áfram að skapa sér ágæt færi og þegar töluvert var liðið á hálfleikinn náði Ólöf Sigríður Kristinsdóttir að skora með góðu skoti eftir sendingu frá Fríðu Halldórsdóttur.

Skömmu síðar gerði Ólöf Sigríður Kristinsdóttir sitt annað mark með góðum skalla eftir frábæra aukaspyrnu frá Lilju Björgu Ólafsdóttur.

Bæði lið fengu svo sín færi það sem eftir lifði leiks en Ólöf Sigríður Kristinsdóttir kórónaði frábæran leik sinn með sínu þriðja marki undir lok leiksins. Stoðsendinguna átti Fríða Halldórsdóttir sem átti þar sína þriðju sendingu sem gaf mark í leiknun.

ÍA vann þannig frekar öruggan 4-1 sigur á HK/Víking og hafa Skagastelpur þar með unnið sinn fyrsta leik í Lengjubikarnum.