Skagastelpur unnu Hamrana í síðasta leik tímabilsins

Meistaraflokkur kvenna spilaði í kvöld sinn síðasta leik við Hamrana í Inkasso-deildinni í Boganum. ÍA var í þriðja sæti deildarinnar með 37 stig og Fylkir og Keflavík voru búin að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni svo þessi leikur var aðeins upp á að enda tímabilið vel. Hamrarnir voru í fallsæti en áttu tækifæri á að bjarga sér frá fall svo þessi leikur skipti þá öllu máli.

Hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt eftir í leiknum og barist var um hvern bolta. Mikil stöðubarátta var á milli leikmanna og bæði lið voru að sækja og reyna að skapa sér markverð færi. Skagastelpur fengu nokkur ágæt hálffæri í hálfleiknum en ekki náðist að koma boltanum í netið.

Hamrarnir áttu nokkrar góðar sóknir í fyrri hálfleik en vörn ÍA stóð vaktina með prýði og náði að bjarga þegar þörf var á. Á 34. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins þegar Bergdís Fanney Einarsdóttir kom með góða fyrirgjöf inn í vítateig Hamrana þar sem Maren Leósdóttir skoraði með fallegu skoti efst í markhornið.

Fátt markvert gerðist það sem eftir var hálfleiksins en heimamenn spiluðu ágætan bolta og voru meira ógnandi upp við mark ÍA. Staðan í hálfleik var þó 0-1 fyrir Skagastelpur þegar gengið var til búningsklefa.

Seinni hálfleikur var svo um margt svipaður og sá fyrri. Hamrarnir reyndu að sækja og skapa sér markverð færi en áttu erfitt uppdráttar gegn góðri skagavörn auk þess sem Toni Ornela var traust sem fyrr í markinu.

ÍA sótti svo af nokkrum krafti í hálfleiknum og náði að skapa sér nokkur ágæt færi sem misfórust fyrir framan mark Hamrana. Það var þó ekki fyrr en á 77. mínútu sem úrslit leiksins voru ráðin en þá léku Bergdís Fanney Einarsdóttir og Unnur Ýr Haraldsdóttir boltanum á milli sín í gegnum fáliðaða vörn heimamanna sem lauk með því að Bergdís Fanney skoraði með föstu skoti í fjærhornið.

Eftir þetta fengu bæði lið sín marktækifæri en lítið kom úr þeim sóknarlotum. Á lokamínútu leiksins komst sóknarmaður Hamrana einn í gegnum vörn ÍA sem endaði með því að Toni Ornela braut á honum utan vítateigs og fékk rauða spjaldið fyrir leikbrotið. Bergdís Fanney Einarsdóttir gerði sér svo lítið fyrir og fór í markið og bjargaði marki með glæsilegri markvörslu úr aukaspyrnunni.

Í framhaldinu var leikurinn svo flautaður af og Skagastelpur unnu góðan 0-2 útisigur á Hömrunum í baráttuleik. ÍA endar þannig tímabilið í þriðja sæti Inkasso-deildarinnar með 40 stig sem er frábær árangur. Bergdís Fanney Einarsdóttir og Unnur Ýr Haraldsdóttir enduðu svo báðar með 15 mörk í deildinni.

Að endingu óskum við stelpunum til hamingju með góða frammistöðu í deildinni í sumar og þökkum þeim fjölmörgu stuðningsmönnum sem studdu við bakið á þeim í Inkasso-deildinni.