Skagastelpur töpuðu fyrir KR í Lengjubikarnum

Meistaraflokkur kvenna fór og mætti KR í öðrum leik liðsins í Lengjubikarnum í Egilshöll í gærkvöldi.

KR liðið kom vel stemmt inn í þennan leik og náðu snemma leiks að koma boltanum í mark ÍA en það gerði Tijana Krstic. Bæði lið áttu ágætar sóknir í hálfleiknum en fleiri mörk voru ekki skoruð. Staðan var því 1-0 fyrir KR.

Snemma í seinni hálfleik kom Guðmunda Brynja Óladóttir KR í 2-0. En strax í næstu sókn áttu Skagastelpur góðan samleik sem endaði því að Védís Agla Reynisdóttir skoraði gott mark og ÍA komið inn í leikinn.

Góð marktækifæri sköpuðust á báða bóga það sem eftir lifði leiks en það var KR sem kláraði leikinn með marki frá Tijönu Krstic. KR vann því ágætan 3-1 sigur á ÍA.