Skagastelpur töpuðu fyrir Haukum í faxaflóamótinu

Meistaraflokkur kvenna tók á móti Haukum í þriðja leik liðsins í faxaflóamótinu í Akraneshöll í kvöld.

Haukar komu vel stemmdir inn í þennan leik og náðu snemma leiks að koma boltanum tvisvar í mark ÍA eftir klaufagang í vörninni. Mörkin gerðu Elín Björg Símonardóttir og Regielly Rodrigues. Bæði lið áttu ágætar sóknir í hálfleiknum en fleiri mörk voru ekki skoruð. Staðan var því 0-2 fyrir Hauka.

Í síðari hálfleik var töluvert jafnræði milli liðanna og góð marktækifæri sem sköpuðust á báða bóga en ekki náðist að nýta færin. Það voru þó Haukar sem náðu að innsigla sigurinn undir lokin þegar Helga Magnea Gestsdóttir skoraði ágætt mark.

Haukar unnu því 0-3 sigur á ÍA en bæði lið eru að berjast á toppi síns riðils í faxaflóamótinu.