Skagamenn unnu stórsigur á Stjörnumönnum

Meistaraflokkur karla mætti Stjörnunni í öðrum leik Lengjubikarsins í kvöld en leikurinn fór fram í Kórnum.

Frá byrjun leiks voru Skagamenn vel stemmdir og ætluðu að berjast um hvern bolta í leiknum. Þrátt fyrir að Stjarnan skapaði sér fáein færi var ÍA mun betri aðilinn í hálfleiknum og átti fjölmargar sóknir. Arnar Már Guðjónsson og Viktor Jónsson áttu góð skot sem fóru í markrammann.

Spilamennska Skagamanna skilaði svo þremur mörkum í hálfleiknum en þau gerðu Gonzalo Zamorano og Þórður Þorsteinn Þórðarson en eitt markanna var sjálfsmark frá Þórarni Inga Valdimarssyni. Staðan var því 0-3 fyrir ÍA í hálfleik.

Síðari hálfleikur var svo mjög svipaður og sá fyrri. Skagamenn voru mun sterkari aðilinn og Stjörnumenn voru heillum horfnir og áttu í raun aldrei möguleika í leiknum.

ÍA skapaði sér fjölmörg marktækifæri og aftur skiluðu þrjú skot marki en þau gerðu Viktor Jónsson og Gonzalo Zamorano með tvö mörk. Gonzalo Zamorano gerði þannig þrennu í leiknum en þess má geta að Hákon Arnar Haraldsson lagði upp tvö síðustu mörk leiksins.

Spilamennska liðsins var frábær í kvöld og 0-6 gefa frekar sanngjarna mynd af gangi leiksins. Úrslitin hefðu getað verið enn stærri miðað við gang leiksins.

Hér má finna umfjöllun fotbolti.net um leikinn.

Næsti leikur ÍA er svo föstudaginn 1. mars gegn Þór kl. 20 í Akraneshöll.