Skagamenn unnu öruggan sigur á Þórsurum

Meistaraflokkur karla mætti Þórsurum í þriðja leik Lengjubikarsins í kvöld en leikurinn fór fram í Akraneshöll.

Frá byrjun leiks voru Skagamenn vel stemmdir og það skilaði marki snemma leiks þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson fagnaði endurkomu sinni með góðu marki eftir sendingu frá Viktori Jónssyni.

ÍA var sterkari aðilinn í hálfleiknum og skapaði sér nokkur ágæt færi. Það skilaði svo öðru marki um miðjan hálfleikinn þegar Viktor Jónsson kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Steinari Þorsteinssyni.

Bæði lið fengu svo sín færi í framhaldinu en mörkin létu á sér standa. Staðan í hálfleik var því 2-0 fyrir ÍA.

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum. Þórsarar komust meira í takt við leikinn og sköpuðu sér ágæt marktækifæri en vörn ÍA náði að bjarga þegar þörf var á. Skagamenn fengu svo sín færi en náðu ekki að nýta þau.

Þegar langt var liðið á seinni hálfleik komust Þórsarar í góða sókn sem endaði með því að Jónas Björgvin Sigurbergsson skoraði með föstu skoti.

Skömmu síðar komust Skagamenn svo aftur tveimur mörkum yfir þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson gaf góða sendingu inn í vítateig Þórs þar sem Albert Hafsteinsson skallaði boltann í markið af öryggi.

Á lokamínútu leiksins fékk ÍA svo vítaspyrnu eftir að brotið var á Bjarka Steini Bjarkasyni. Þórður Þorsteinn Þórðarson tók spyrnuna og skoraði í mitt markið með föstu skoti.

Skagamenn unnu þannig frekar öruggan sigur á Þórsurum 4-1 í leik þar sem bæði lið hefðu getað skorað fleiri mörk.

Hér má finna umfjöllun fotbolti.net um leikinn.

Næsti leikur ÍA er svo laugardaginn 9. mars gegn Grindavík kl. 16 í Akraneshöll.