Skagamenn unnu öruggan sigur á Magna frá Grenivík

Meistaraflokkur karla mætti Magna frá Grenivík í fimmta og síðasta leik Lengjubikarsins í kvöld en leikurinn fór fram í Boganum.

Skagamenn voru töluvert sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu og sköpuðu sér álitleg færi sem ekki náðist að nýta. Um miðjan hálfleikinn átti Tryggvi Hrafn Haraldsson góða aukaspyrnu inn í vítateig Magna þar sem Einar Logi Einarsson skoraði með góðum skalla.

Magni náði sjaldan að ógna marki ÍA en vörn Skagamanna náði ávallt að bjarga þegar á þurfti að halda. Staðan í hálfleik var því 0-1 fyrir ÍA.

Skagamenn hófu seinni hálfleikinn af krafti og snemma leiks átti Þórður Þorsteinn Þórðarson aukaspyrnu í vítateig þar sem Steinar Þorsteinsson skallaði boltann fyrir mark Magna. Þar var Arnór Snær Guðmundsson einn á auðum sjó og skoraði af öryggi.

ÍA hélt áfram að skapa sér góð marktækifæri og það skilaði þriðja marki leiksins um miðjan hálfleikinn þegar Bjarki Steinn Bjarkason átti góða sendingu á Gonzalo Zamorano sem skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Þegar langt var liðið á seinni hálfleik átti Bjarki Steinn Bjarkason svo góða rispu upp völlinn, lék á varnarmenn Magna og skoraði með fallegu skoti. Staðan orðin 0-4 og úrslitin orðin ljós.

Á lokamínútu leiksins náði Magni að skora sárabótarmark úr einni af sínum fáu markverðu sóknum í leiknum þegar Lars Óli Jessen skoraði með lúmsku skoti . Þetta var aðeins annað markið sem ÍA fékk á sig í fimm leikjum

Leiknum lauk þannig með 1-4 sigri ÍA á Magna og unnu Skagamenn alla leiki sína í riðlinum með markatöluna 18-2.

Skagamenn munu mæta KA í undanúrslitum Lengjubikarsins en leikurinn fer fram fimmtudaginn 21. mars kl. 18:00 í Akraneshöll.