Skagamenn tóku Keflvíkinga í kennslustund

Meistaraflokkur karla tók á móti Keflavík í fyrsta leik ársins á fotbolti.net mótinu í Akraneshöll í dag. Skemmst er frá því að segja að yfirburðir Skagamanna voru algjörir í þessum leik og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.

Margar góðar sóknir litu dagsins ljós og þeir Stefán Teitur Þórðarson, Arnar Már Guðjónsson og Gonzalo Zamorano Leon gerðu mörk ÍA í fyrri hálfleik. Miðað við gang leiksins hefðu Skagamenn hæglega getað gert fleiri mörk.

Meira jafnræði var svo í seinni hálfleik og bæði lið fengu sín marktækifæri. Það var aftur á móti ÍA sem gerði eina mark hálfleiksins en það gerði Einar Logi Einarsson.

Skagamenn unnu þannig Keflvíkinga verðskuldað 4-0 í fyrsta leik fotbolti.net mótsins og var virkilega gaman að fylgjast með spilamennsku ÍA í leiknum.