Skagamenn í æfingaferð í Cardiff í Wales
Meistaraflokkur karla hefur síðustu daga verið við æfingar í Cardiff í Wales en æfingaferðin er liður í undirbúningi liðsins fyrir komandi keppnistímabil sem hefst síðar í mánuðinum.
Í dag lék liðið æfingaleik við lið University of South Wales og vann mjög öruggan 5-0 sigur. Mörk ÍA gerðu Albert Hafsteinsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson, Steinar Þorsteinsson, Gonzalo Zamorano og Þórður Þorsteinn Þórðarson.
Í æfingaferðinni hefur ungverski markvörðurinn Adam Zima verið til reynslu en hann er 22 ára gamall. Hann fékk að spreyta sig í æfingaleiknum í dag og stóð sig með ágætum.
Strákarnir koma svo heim á morgun og þá hefst undirbúningur fyrir úrslitaleikinn gegn KR í Lengjubikarnum sem fer fram á Eimskipsvellinum á sunnudaginn kl. 19:15.
Hér má sjá markaskorara leiksins í dag: Tryggvi Hrafn, Þórður Þorsteinn, Gonzalo, Albert og Steinar