Skagamenn höfðu betur gegn Grindvíkingum

Meistaraflokkur karla mætti Grindavík í fjórða leik Lengjubikarsins í dag en leikurinn fór fram í Akraneshöll.

Töluvert jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Skagamenn voru samt sterkari aðilinn og sköpuðu sér álitleg færi sem ekki náðist að nýta. Grindavík átti ágætar sóknir inn á milli sem ógnuðu marki ÍA sjaldan. Staðan í hálfleik var 0-0.

Í seinni hálfleik komu Grindvíkingar inn af krafti og fengu góð marktækifæri. Áttu þeir skot sem fóru í markrammann hjá ÍA og varnarmenn ÍA höfðu nóg að gera á tímabili í leiknum.

Skagamenn fengu nokkur ágæt færi og það skilaði svo loks marki þegar langt var liðið á leikinn. Eftir barning í vítateig Grindavíkur kom Hallur Flosason boltanum inn á Albert Hafsteinsson sem skoraði með góðum skalla.

Skömmu síðar gerði ÍA svo út um leikinn þegar Hákon Arnar Haraldsson átti stoðsendingu á Gonzalo Zamorano sem skoraði með góðu skoti.

Bæði lið fengu sín færi það sem eftir lifði leiks en náðu ekki að koma boltanum í netið. Undir lok leiksins var svo leikmaður Grindavíkur, Rodrigo Gomes Mateo, rekinn af leikvelli fyrir tvö gul spjöld.

Leiknum lauk þannig með 2-0 sigri ÍA á Grindavík og eru Skagamenn búnir að vinna sinn riðil í Lengjubikarnum. Síðasti leikur ÍA í riðlinum verður svo laugardaginn 16. mars gegn Magna Grenivík.