Skagamenn eru sigurvegarar í Inkasso-deildinni 2018

Skagamenn spiluðu í dag við Þrótt R á Norðurálsvellinum í 22. og síðustu umferð Inkasso-deildarinnar. Með sigri eða jafntefli gat ÍA orðið deildarmeistari ef HK tapaði gegn Haukum á sama tíma svo til mikils var að vinna.

ÍA byrjaði leikinn af krafti og skapaði sér nokkur álitleg marktækifæri. Steinar Þorsteinsson var mjög nálægt því að koma boltanum í netið en markvörður gestanna bjargaði vel í nokkur skipti. Þrátt fyrir góðar sóknir náðist ekki að koma boltanum í netið.

Þróttarar voru frekar til baka í leiknum en beittu skyndisóknum sem ógnuðu marki ÍA ekki að miklu leyti. Viktor Jónsson var helst í því að skapa sér færi en varnarmenn Skagamanna náðu að halda honum í skefjum.

Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og hvorugt liðið gaf nokkuð eftir. Staðan í hálfleik var því 0-0.

Þróttarar komu vel stemmdir í seinni hálfleik og fengu góð færi en fyrsta mark leiksins kom á 54. mínútu þegar Garðar Gunnlaugsson skoraði með góðu skoti eftir undirbúning frá Bjarka Steini Bjarkasyni.

Skömmu síðar átti Ólafur Valur Valdimarsson skot í stöngina hjá Þrótti og gestirnir voru ekki lengi að nýta sér því á 65. mínútu skoraði Jasper Van Der Heyden eftir stungusendingu frá Viktori Jónssyni.

ÍA ætlaði sér að ná sigurmarkinu og í næstu sókn átti Bjarki Steinn Bjarkason skot í stöngina á marki Þróttar. Eftir þetta fengu bæði lið álitleg marktækifæri en hvorugu þeirra tókst að koma boltanum í markið.

Á 80. mínútu gerðist svo sögulegur viðburður þegar Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á sem varamaður fyrir Þórð Þorstein ÞórðarsonÍsak Bergmann er yngsti leikmaður í sögu meistaraflokks karla hjá ÍA, 15 ára og 182 daga gamall og bætir met Sigurðar Jónssonar sem var 15 ára og 300 daga gamall þegar hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir ÍA 1982.

Leiknum lauk svo með 1-1 jafntefli. Á sama tíma gerðust þau óvæntu tíðindi að Haukar unnu HK 2-0 og þar varð ÍA deildarmeistari í Inkasso-deildinni með 48 stig líkt og HK en 26 mörk í plús á móti 25 mörkum hjá HK.

Skagamenn unnu þar með deildina og fara sem sigurvegarar í Pepsi-deildina að ári. Við óskum strákunum sem og Jóa Kalla og Sigga Jóns til hamingju með þennan frábæra árangur í sumar. Einnig þökkum við þeim fjölmörgu stuðningsmönnum ÍA sem mættu á völlinn í dag og í sumar fyrir mikilvægan stuðning.

Mynd frá Knattspyrnufélag ÍA.

Hér má sjá leikmannahóp ÍA fagna deildarmeistaratitlinum.