Skagamenn eru komnir upp í Pepsi-deildina á nýjan leik

Skagamenn spiluðu í dag við Selfoss á Jáverk-vellinum í 21. umferð Inkasso-deildarinnar. Með sigri eða jafntefli var ÍA komið í deild þeirra bestu á ný á meðan Selfoss varð að vinna til að geta bjargað sér frá falli svo leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið.

ÍA byrjaði leikinn af krafti og ljóst var frá fyrstu mínútu að Skagamenn ætluðu að sækja grimmt. Það skilaði marki strax á 17. mínútu leiksins þegar Steinar Þorsteinsson átti sendingu inn í vítateig Selfoss þar sem Jeppe Hansen skoraði með lúmsku skoti.

Selfoss náði lítið að skapa sér af marktækifærum í hálfleiknum og þá sjaldan sem það gerðist bjargaði sterk vörn ÍA þegar þörf var á. Skagamenn sóttu grimmt og fengu nokkur kjörin færi sem misfórust.

Annað markið í leiknum lá samt í loftinu og það kom svo undir lok hálfleiksins þegar Steinar Þorsteinsson tók hornspyrnu að marki Selfoss. Eftir nokkurn barning barst boltinn til Arnars Más Guðjónssonar sem skoraði með góðum skalla. Staðan í hálfleik var því 0-2 fyrir ÍA.

Mun meira jafnræði var á milli liðanna í seinni hálfleik og Selfoss náði að komast betur í takt við leikinn. Bæði lið fengu góð marktækifæri sem ekki tókst að nýta að neinu marki.

Um miðjan seinni hálfleik fengu svo Hrvoje Tokic og Kenan Turudija beint rautt spjald hjá dómara leiksins fyrir grófa framkomu og ljóta hegðun gagnvart leikmönnum ÍA. Selfyssingar orðnir tveimur leikmönnum færri.

Þetta varð þó til að vekja Selfoss því á 71. mínútu náði Guðmundur Alex Hilmarsson að skora með góðum skalla eftir sendingu frá Inga Rafni Ingibergssyni. Staðan orðin 1-2 og allt opið í leiknum.

Það sem eftir lifði leiks fengu Selfyssingar sín tækifæri til að jafna metin en þeir náðu lítið að opna vörn íA sem fyrr. Á sama tíma beittu Skagamenn eitruðum skyndisóknum sem opnuðu vörn Selfoss margoft en fyrir algjöran klaufaskap náðist ekki að koma boltanum í netið.

Þegar komið var fram í uppbótartíma náðist þó að klára leikinn þegar ÍA átti skyndisókn á fáliðaða vörn heimamanna. Stefán Teitur Þórðarson komst í gegn og gaf boltann á bróður sinn Þórð Þorstein Þórðarson sem skoraði af öryggi.

Leikurinn endaði því með mjög sanngjörnum sigri ÍA 1-3 og Skagamenn eru komnir í Pepsi-deildina á nýjan leik. Er ástæða til að þakka þeim fjölmörgu stuðningsmönnum ÍA sem mættu á völlinn í dag. Er vonandi að við getum fylgt því eftir um næstu helgi með því að lyfta bikar fyrir sigur í Inkasso-deildinni.