Skagamenn eru komnir í úrslit Lengjubikarsins

Meistaraflokkur karla mætti KA í undanúrslitum Lengjubikarsins í kvöld en leikurinn fór fram í Akraneshöll.

Skagamenn voru töluvert sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu og sköpuðu sér ágæt færi sem ekki náðist að nýta. Á 30. mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar Albert Hafsteinsson skoraði beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig KA sem endaði efst í markhorninu.

Á 38. mínútu átti Þórður Þorsteinn Þórðarson góða aukaspyrnu inn í vítateig KA þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði með góðum skalla yfir markvörð KA.

KA náði sjaldan að ógna marki ÍA en vörn Skagamanna náði ávallt að bjarga þegar á þurfti að halda. Staðan í hálfleik var því 2-0 fyrir ÍA.

Skagamenn hófu seinni hálfleikinn af krafti og á tveggja mínútna kafla var gert út um leikinn. Á 54. mínútu fékk Gonzalo Zamorano boltann inni í vítateig KA, lék á varnarmenn gestanna hvað eftir annað og kom loks boltanum af öryggi í markið.

Á 56. mínútu sundurspilaði ÍA svo vörn KA sem endaði með því að Gonzalo Zamorano átti góða sendingu á Bjarka Stein Bjarkason sem skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks. Skagamenn héldu áfram að skapa sér nokkur hálffæri sem lítið varð úr en KA átti sárafáar sóknir í leiknum sem eitthvað kvað að og ógnaði ÍA lítið í leiknum.

Leiknum lauk þannig með 4-0 sigri ÍA á KA og eru Skagamenn þar með komnir í úrslitaleik Lengjubikarsins í fyrsta sinn síðan 2003.

Skagamenn munu mæta KR eða FH í úrslitaleik Lengjubikarsins en leikurinn mun að öllu óbreyttu fara fram sunnudaginn 7. apríl nk.