ÍA gerði jafntefli við Val í æfingaleik

Meistaraflokkur karla spilaði í dag við Val í leik sem var tileinkaður Kristni Jens Kristinssyni en hann hefur átt við erfið veikindi að stríða síðustu ár. Voru margir stuðningsmenn sem mættu á styrktarleikinn af þeim sökum og borguðu sig á leikinn. Það gerðu einnig leikmenn beggja liða sem vildu leggja sitt af mörkum.

Leikurinn var mjög fjörugur framan af og skapaði ÍA sér fjölda álitlegra færa í fyrri hálfleik. Vítaspyrna var dæmd á Val um miðjan fyrri hálfleik eftir brot á Viktori Jónssyni. Vítaspyrnuna tók Stefán Teitur Þórðarson en markvörður Vals varði vel.

Það var svo á 43. mínútu sem Skagamenn komust verðskuldað yfir en þá skoraði Hafþór Pétursson með skalla eftir hornspyrnu frá Ragnari Leóssyni. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir heimamenn.

Seinni hálfleikur var svo mun jafnari enda skiptu bæði lið grimmt eftir því sem leið á hann. Bæði fengu sín færi en það var á 76. mínútu sem Valur jafnaði en það gerði Garðar Gunnlaugsson úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Andra Adolphssyni innan vítateigs ÍA.

Leikurinn endaði þannig 1-1 en Skagamenn geta gengið sáttir af leikvelli og hefðu með réttu átt að vinna leikinn miðað við þau dauðafæri sem sköpuðust í leiknum.

Leikmenn beggja liða ásamt dómurum og Kristni Jens Kristinssyni fyrir leik