Frábær sigur ÍA á sterku liði FH í fotbolti.net mótinu

Meistaraflokkur karla spilaði í dag við FH í öðrum leik liðanna í fotbolti.net mótinu en leikurinn fór fram í Akraneshöll. ÍA hafði unnið sinn fyrsta leik í mótinu en FH hafði gert jafntefli.

Leikurinn fór jafnt af stað en FH sýndi styrk sinn þegar leið á fyrri hálfleik. Þórir Jóhann Helgason skoraði þá eftir góðan undirbúning frá Atla Guðnasyni og skömmu síðar gerði Jónatan Ingi Jónsson fallegt mark eftir einleik.

Skagamenn lögðu þó árar ekki í bát heldur héldu áfram að spila sinn bolta. Það skilaði svo marki þegar Bjarki Steinn Bjarkason skoraði eftir sendingu frá Steinari Þorsteinssyni. Staðan í hálfleik var því 1-2 fyrir FH.

ÍA lék svo á alls oddi í byrjun seinni hálfleiks en strax í upphafi hans skoraði Bjarki Steinn Bjarkason með bylmingsskoti eftir undirbúning frá Steinari Þorsteinssyni.

Strax í næstu sókn tók Bjarki Steinn Bjarkason aukaspyrnu inn að marki FH þar sem brotið var á Óttari Bjarna Guðmundssyni og vítaspyrna réttilega dæmd. Hana tók Arnar Már Guðjónsson sem skoraði af öryggi.

Skömmu síðar átti Bjarki Steinn Bjarkason aðra aukaspyrnu inn í vítateig FH þar sem Einar Logi Einarsson náði að skalla boltann í markið og staða Skagamanna orðin vænleg í leiknum.

Bæði lið fengu ágæt færi eftir þetta en leiknum lauk með verðskulduðum 4-2 sigri ÍA, sem áttu mjög góðan leik í dag.

Bjarki Steinn Bjarkason átti virkilega góðan leik í dag með tvö mörk og stoðsendingu. Hann er hér á mynd með Magnúsi Guðmundssyni, formanni KFÍA.